Réttindi lífeyrisþega & öryrkja á Spáni

Lífeyrisþegar á Spáni

Það er að mörgu að huga þegar íslenskir lífeyrisþegar vilja dvelja langdvölum á Spáni. Þessari grein er ætlað að skýra frá því helsta.

  • Þegar íslenskir lífeyrisþegar dvelja á Spáni í 183 daga á ári eða lengur þá eru þeir orðnir skattskyldir á Spáni.
  • Tvísköttunarsamningur er milli Íslands og Spánar og samkvæmt honum á að greiða skatta á Spáni af tekjum frá TR og almennum lífeyrissjóðum en öðrum á Íslandi.
  • Þeir sem hafa residencia og padrón njóta persónuafsláttar, þ.e. greiða ekki skatta af fyrstu 5.550 Evrunum ef yngri en 65 ára, 65 ára og eldri greiða ekki skatt af fyrstu 6.700 Evrunum og þeir sem hafa náð 75 ára aldri greiða ekki skatt af fyrstu 8.100 Evrunum.
  • Spænskir öryrkjar njóta, auk þess frekari lækkunar á skattstofni sínum, 3.000 Evru lækkun ef örorkan er 33-65% og 9.000 Evrur sé hún yfir 65%.

Þessar tölur hér að ofan eru vegna framtals 2019, vegna tekna 2018.

 

Íslenskur og spænskur öryrki

  • Það er afar mikilvægt að íslenskir öryrkjar teljir ekki fram til skatts sem spænskir öryrkjar nema þeir hafi spænskt örorkumat. Íslenska örorkumatið er lagt til grundvallar hinu spænska en prósenturnar eru aðrar.
  • Það getur tekið allt að hálft ár að fá spænska örorkumatið en það borgar sig að leggja það á sig þegar upp er staðið. Spænskur öryrki er það út ævina.
  • Ábyrgðin á skattframtalinu er alltaf framteljandans þótt sérfræðingur hafi verið ráðinn til þess að útbúa það og senda inn.
  • Þegar skattyfirvöld loksins fara yfir þetta þá eru að minnsta kosti þrjú til fjögur ár liðin frá tekjuárinu og sérfræðingurinn verið löngu stunginn af vegna rangindanna. Þetta getur hæglega kostað öryrkjann árstekjur frá TR fyrir að telja fram sem öryrki án spænsks örorkumats og því réttast að vera meðvitaður um þetta.

Þeir sem hafa talið fram sem spænskir öryrkjar án spænsks örorkumats undanfarin ár ættu að venda sér beint í að afla þess. Skattayfirvöld hér eru venjulega að vinna í fjögurra ára gömlum gögnum.

 

Greiðslur TR

Greiðslur frá TR gætu breyst eitthvað við flutning til Spánar. Allar félagslegar bætur falla niður. Þær eru:

  • Barnalífeyrir vegna náms
  • Dánarbætur
  • Endurhæfingarlífeyrir (og tengdar bætur)
  • Heimilisuppbót
  • Maka- og umönnunarbætur
  • Mæðra- og feðralaun
  • Sérstök uppbót til framfærslu
  • Umönnunargreiðslur
  • Uppbætur á lífeyri
  • Bílastyrkur og bensínpeningar
  • Bílastyrkur og bensínpeningar

Milliganga þeirra og Innheimtustofnunar sveitarfélaga fyrir meðlagsgreiðslur fellur niður. Hana þarf þá að sækja beint til meðlagsgreiðanda enda ber honum að greiða meðlag með börnum sínum sama hvar þau eru stödd í heiminum.

Það sem öryrkinn fær greitt áfram er örorkulífeyrir og tekjutrygging að teknu tilliti til allra hans tekna. Laun á Spáni skerða tekjutrygginguna eins og aðrar tekjur. Svo kemur að því að öryrki verður ellilífeyrisþegi á Íslandi en ef hann hefur spænskt örorkumat þá gildir það út ævina.

 

Sjúkratrygging

Gegn framvísun evrópska sjúkratryggingakortsins fæst nær öll ríkisrekin heilbrigðisþjónusta á Spáni, t.d. lyfseðilsskyld lyf og önnur neyðarþjónusta.

Þegar tilkynnt er um flutning lögheimilis úr landi til Spánar þá er hægt að senda Sjúkratryggingum Íslands beiðni um að gefa út S1 vottorð. Það er hægt að nota vottorðið sem sönnun þess að vera sjúkratryggður við útgáfu residencia hér á Spáni enda þurfa allir sem um residencia sækja að sýna fram á að geta framfleytt sér á Spáni auk þess að vera sjúkratryggðir.

S1 vottorðið þýðir að Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir heilbrigðisþjónustuna á Spáni. Spænskt sjúkratryggingakort er venjulega útgefið á svipuðum tíma og residencia-kortið. Sjúkratryggingin fellur ekki niður á Íslandi þannig að handhafi S1 vottorðs er tryggður á báðum stöðum.

Það eru því nokkur atriði sem lífeyrisþegar þurfa að gera þegar þeir flytja til Spánar.

  1. Fá NIE númer (kennitala fyrir útlendinga)
  2. Fá spænskan bankareikning
  3. Fá Padrón
  4. Flytja lögheimilið frá Íslandi til Spánar í Þjóðskrá Íslands (hægt á netinu)
  5. Fá S1 vottorð frá Sjúkratryggingum Íslands (hægt á netinu)
  6. Sækja um residencia
  7. Skrá sig hjá skattayfirvöldum á Spáni.
  8. Fá undanþágu frá skattlagningu tekna á Íslandi til að framvísa hjá TR og almennum lífeyrissjóðum.

Með þessu þarf ýmis gögn eins og

  • vegabréf
  • leigusamning/kaupsamning,
  • vatnsreikning,
  • yfirlit bankareiknings,
  • jafnvel afrit kassamiða úr búðum.

Allt sem sýnir að þú eyðir peningum þínum á Spáni. Heimilisfangið á leigusamningi/kaupsamningi þarf að vera nákvæmlega eins og á vatnsreikningi. Annars er hætt við því að umsækjendum um padrón/residencia sé vísað frá. Upptalningin er ekki tæmandi.

 

Lífsvottorð

Árlega þarf að skila inn til TR og lífeyrissjóða á Íslandi lífsvottorði. TR vill líka fá sent spænskt afrit skattframtals. Íslenski skatturinn vill líka fá afrit.

Eignir utan Spánar

Ef þú átt eignir utan Spánar (t.d. á Íslandi) sem nema meiru en 50.000 Evrum, t.d. íbúð eða verðbréf þá þarf að skila inn skattframtali á eyðublaði 720 fyrir 1.3. ár hvert. Sektir við að skila þessu ekki inn liggja á bilinu 3.000€ til 6.000€.

 

Skammtímaleiga á Spáni

Þeir sem leigja út íbúð á Spáni í skemmri tíma en árs þurfa leyfi til skammtímaútleigu íbúða. Leigutekjur af spænsku húsnæði eru ávallt skattlagðar á Spáni. Sömuleiðis eru leigutekjur á Íslandi ávallt skattlagðar á Íslandi.

 

Lokaorð

Hér er stiklað á stóru. Skattárið á Spáni er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert. Þeir sem eru framtalsskyldir á Spáni þurfa að skila inn skattframtali fyrir 30. júní ár hvert. Best er að fá sérfræðing í skattframtalið, a.m.k. til að byrja með. Það hefur líka reynst vel að njóta aðstoðar spænskumælandi við öflun NIE, padrón, residencia og fleira. FHS er í samstarfi við eftirfarandi aðila sem hafa reynst félagsmönnum vel í gegnum árin.

Ræðismaður Íslands, Manuel Zerón á skrifstofu Cove Advisors hefur verið mörgum íslendingnum innan handar og hefur aðstoðað þá í gegnum tíðina við gerð skattframtala og margt fleira.

Gangi þér vel!

Gagnlegir tenglar

http://www.tr.is

http://www.skattur.is

http://www.rsk.is

http://www.thjodskra.is

https://fhs.is/oryggisnetid

 

Samantekt: Karl Kristján Hafsteinn Guðmundsson

Deila: